Author: Ásgrímur Helgi Einarsson

Elítumót KFR 2016

Á fimmtudag fór fram Elítumót KFR. Elítumótið er að verða eitt vinsælasta og skemmtilegasta mót ársins og gaman er að sjá marga fyrrverandi keilara á öllum aldri mæta í mótið.  Mótið tókst einstaklega vel þetta árið, mikil stemning var húsinu en auk mótsins var verið að sýna frá leik Liverpool og Manchester United og því fullt út úr dyrum.

Úrslit úr mótinu má sjá hérna og hér fyrir  neðan myndir.  KFR þakkar Keiluhöllinni kærlega fyrir aðstoðina við framkvæmd mótsins.

 

Myndir frá Elítumóti KFR 2016

 

 

Aðalfundur KFR í kvöld.

Aðalfundur KFR var haldinn í kvöld í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Fundurinn var ágætlega sóttur.
Fundarstjóri var Valgeir Guðbjartsson.  Ásgrímur formaður flutti skýrslu stjórnar og í stuttu máli þá var árið hjá KFR gott. Ágætis árangur náðist og rekstur félagsins gekk vel.  Unnur gjaldkeri gerði grein fyrir reikningum en eins og áður segir gekk reksturinn vel.

Fundurinn minntist Bjarna Sveinbjörnssonar sem féll nýverið frá. Bjarni var félagi í KFR frá byrjun og vann mikið fyrir félagið.

Ný stjórn var kosin. Ásgrímur gaf ekki kost á sér sem formaður áfram þar sem hann mun gefa kost á sér í formannskjöri á ársþingi KLÍ í maí. Guðjón Júlíusson var kjörinn formaður og með honum í stjórn þau Sesselja Unnur Vilhjálmsdóttir, Svanhildur Ólafsdóttir, Guðlaugur Valgeirsson og Hafdís Pála Jónasdóttir. Í varastjórn voru kosin Þórunn Stefanía Jónsdóttir og Böðvar Már Böðvarsson.  Þá var Þórir Haraldsson kosinn endurskoðandi reikninga.

Á fundinum fengu Erla Ívarsdóttir og Haraldur Sigursteinsson afhent silfurmerki KFR fyrir störf sín fyrir KFR og keiluna.

Keilarar ársins hjá KFR eru Arnar Davíð Jónsson og Dagný Edda Þórisdóttir. Þau gátu hvorugt verið viðstödd en Valgeir Guðbjarsson og Þórir Invarsson tóku við viðurkenningum fyrir þeirra hönd.

Ný stjórn mun hittast fljótlega til að skipta með sér verkum og byrja undirbúning að komandi tímabili og ársþingi KLÍ.

 

 

Tvöfalt hjá KFR

Hafdís Pála Jónasdóttir og Arnar Davíð Jónsson urðu Íslandsmeistarar einstaklinga í gærkvöldi.

Hafdís, sem á dögunum varð fyrsta íslenska konan til að spila 300, átti frábært mót og leiddi það nær allan tímann. Hún mætti Lindu Hrönn Magnúsdóttur úr ÍR í úrslitum og sigraði hana í tveimur leikjum. Í þriðja sæti varð svo Dagný Edda Þórisdóttir úr KFR. Alls áttum við KFR-ingar 4 konur í 8 manna úrslitum en auk Hafdísar og Dagnýar voru það Ragnheiður Þorgilsdóttir Íslandsmeistari 2015 sem endaði 4. sæti og Katrín Fjóla Bragadóttir sem endaði í 7. sæti.  Frábær árangur hjá konunum okkar.

Í karlaflokki var sama upp á teningnum og i kvennaflokknum. Arnar Davíð leiddi mótið nær allan tímann og í raun má segja að engin hafi komist með tærnar þar sem hann hafði hælana.  Arnar spilaði frábærlega og sigraði Stefán Claesen ÍR í úrslitum, 2 – 0. Fyrri leikurinn í úrslitunum var æsispennandi, hann enaði 214 – 214 og þurfti því að grípa til bráðabana þar sem Arnar náði fellu en Stefán 9 keilum.  Eins og í kvennaflokki þá átti KFR fjóra af átta sem spiluðu í úrslitum og eins og í kvennaflokki þá enduðu okkar keppendur í sætum 1, 3, 4 og 7. Freyr Bragason endaði í 3. sæti, Steinþór Jóhannsson í 4. sæti og Björn Birgisson í því sjöunda. Glæsilegur árangur.

Eins og áður er sagt þá er þessi árangur frábær og erum við KFR-ingar mikið stollt af okkar fólki. Eitt nafn verður þó aðeins útundan í allri umræðunni og það er nafn Theódóru yfirþjálfara KFR. Hún hefur unnið mikið með bæði Arnar Davíð og Hafdísi,  með Arnari áður en hann flutti til Noregs og eitthvað eftir það og svo með Hafdísi alveg frá því að hún byrjaði í keilu.  Dóra hefur unnið frábært starf og á mikinn þátt í þessum árangri.

Við óskum öllu okkar fólki til hamingju með árangurinn og þá sérstaklega þeim þremur, Hafdísi, Arnari Davíð og Theódóru.

 

Arnar Davíð og Hafdís Pála
Arnar Davíð og Hafdís ásamt Theódóru yfirþjálfara KFR
Dagný Edda, Hafdís Pála og Linda Hrönn
Arnar Davíð Jónsson

Hafdís fyrsta konan með 300

Hafdís Pála Jónasdóttir úr KFR spilaði fullkomin leik, 300 stig, í dag og setti um leið Íslandsmet í einum leik því hún er fyrsta íslenska konan til að ná þessum áfanga.
Hafdís spilaði leikinn í forkeppni Íslandsmótsins í Egilshöll en hún leiðir mótið eftir tvo fyrstu keppnisdagana.
Frábær árangur hjá Hafdísi og óskum henni hjartanlega til hamingju.

Hafdís Pála, fyrsta konan til að spila 300
Hafdís Pála, fyrsta konan til að spila 300

Elítumót KFR

Elítumót KFR verður haldið 10. mars kl. 19 í Keiluhöllinni Egilshöll.   Þetta er í þriðja sinn sem mótið er haldið og alltaf er jafn gaman að smala saman keilurum sem eru hættir í sportinu í bland við þá sem enn eru að.

Mótið er C- mót. Spilaðir eru 3 leikir í aldursflokkum.  Ýmislegt verður gert til að létta stemninguna t.d. fellupottur og tilboð á barnum af mat og drykk . Aðalatriðið er þó að hitta gamla vini og kunningja og eiga saman skemmtilega kvöldstund.

Verð og olíuburður verður auglýst fljótlega en skráning fer fram á netinu, https://www.eventbrite.com/e/elitumot-kfr-tickets-21354081633

Mætum nú öll, þetta eru skemmtilegustu mótin!!!!!

 

Þetta er hópurinn sem mætti í síðasta Elítumót.
Þetta er hópurinn sem mætti í síðasta Elítumót.

 

Íslandsmetum rignir á RIG

Okkar fólk er að gera frábæra hluti á RIG. Í forkeppninni settu Dagný Edda og Steinþór bæði Íslandsmet í 6 leikjum.

Steini spilaði 1.545. Frábær árangur hjá honum en eldra met átti Hafþór Harðarson úr ÍR, þá sem félagsmaður KFR, en hann spilaði 1540  19. apríl 2007.

Dagný spilaði 1388 en hún á einnig Íslandsmetin í 2, 3 og 4 leikjum.  Dagný sló met Sigfríðar Sigurðardóttur KFR sem hún setti 23. mars 2003 í Keilu í Mjódd, 1385 stig.

Við óskum okkar fólki til hamingju með þennan frábæra árangur.

 

Steinþór Jóhannsson
Dagný Edda Þórisdóttir

Góður árangur KFR-ingum á RIG

Þessa dagana stendur keilukeppni RIG, Reykjavík International Games, yfir.  Nú standa yfir 16 manna úrslit og þar eigum við 6 keppendur. Það eru Dagný Edda Þórisdóttir, Steinþór Jóhannsson, Björn Birgisson, Gústaf Smári Björnsson, Björn G. Sigurðsson og Freyr Bragason.

Við hvetjum alla til að kíkja við í Egilshöll í dag og hvetja okkar fólk áfram.

 

Myndir ertu teknar af Facebook síður Keiludeildar ÍR

Bjarni Sveinbjörnsson látinn

Bjarni Sveinbjörnsson lést að morgni 10. janúar 68 ára að aldri.  Bjarni stundaði keilu frá upphafi hennar á Íslandi og var einn af forustumönnum íþróttarinnar alla tíð. Hann sá um landslið Íslands á upphafs árum keilunnar og fór í margar ferðir með liðið. Hann sat í stjórn KFR í fjölda mörg ár og sá um unglingastarf félagsins. Bjarna var veitt silfurmerki Keilufélagsins fyrir störf sín á 30 ára afmæli félagsins sl. haust. Hann lék lengstum með KFR – Þröstum. Stjórn Keilufélags Reykjavíkur og félagar úr keilunni senda fjölskyldu og aðstandendum Bjarna innilegar samúðarkveðjur.

Bjarni
Bjarni Sveinbjörnsson

Áramót KFR – gleðilegt ár.

Síðasta mót ársins fór fram í Keiluhöllinni á gamlársdag. Það er löng hefð fyrir því að KFR haldi þar síðasta mót ársins. Ágætis þátttaka var í mótinu og skemmtu allir sér vel.

Úrslit úr mótinu má sjá hér og myndir frá mótinu hér að neðan.

Keilufélag Reykjavíkur óskar öllum gleðilegs árs og þakkar fyrir árið sem er að líða. Það er von okkar að komandi ár verði gæfuríkt fyrir alla og keilunni til framdráttar.