Author: Guðlaugur Valgeirsson

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Stjórn KFR sendir öllum félagsmönnum og vandamönnum okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsældar á komandi ári.

Þökkum fyrir flott ár og vonandi verður árið 2017 ennþá betra.

Að lokum minnum við á jólamótið sem verður haldið eins og venjulega á öðrum degi jóla, 26.desember og Kampavínsmótið sem fram fer á gamlársdegi, 31.desember. Hlökkum til að sjá sem flesta og enda árið með stæl.

jolamot-kfr-2016

KFR verðlaunað á Íþróttamanni Reykjavíkur

KFR var á dögunum verðlaunað fyrir Íslandsmeistaratitil sinn í deildarkeppni kvenna á árinu 2016 en KFR-Valkyrjur urðu Íslandsmeistarar fyrr á þessu ári. Flott viðurkenning frá Reykjavíkurbæ sem verðlaunaði 15 lið frá 10 félögum.

Valkyrjur

Lið Valkyrja má sjá hér að ofan – Hafdís Pála, Katrín Fjóla, Theódóra og Dagný Edda

 

Hafdís Pála og Arnar Davíð keilarar ársins 2016

Keilusamband Íslands hefur valið Hafdísi Pálu Jónasdóttir úr KFR og Arnar Davíð Jónsson úr KFR sem keilara ársins 2016.

hafdis-og-arnar-2

Hafdís Pála Jónasdóttir KFR

Helstu afrek Hafdísar á árinu 2016 eru þau að hún varð Íslandsmeistari einstaklinga, Reykjavikurmeistari einstaklinga og Íslandsmeistari með liði sínu KFR-Valkyrjum.  Hafdís varð einnig fyrsta íslenska konan til að spila 300 eða fullkominn leik. Hafdís var í landsliði Íslands sem lék á Evrópumótinu í Austurríki í sumar en liðið tryggði sér þar þátttökurétt á HM 2017. Hafdís hefur starfað við unglingaþjálfun hjá félagi sínu, KFR, og þannig verið fyrirmynd ungra og efnilegra keilara.

Arnar Davíð Jónsson KFR

Helstu afrek Arnars á árinu 2016 eru að hann varð Íslandsmeistari einstaklinga en það var eina mótið sem hann tók þátt í á Íslandi á árinu. Arnar Davíð er búsettur í Noregi og stundar íþróttina þaðan. Hann leikur þar með liðinu Frogner BK og situr Arnar í 7. sæti norska styrkleikalistans. Meðal sterkra móta sem hann tók þátt í erlendis eru Kongsvinger Open 3. sæti, Drammen open 8. sæti, Norwegian Open 10 sæti og Ringerike open 6. sæti. Arnar Davíð var fyrirliði íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í Belgíu í sumar og tók þátt í Evrópumóti landsmeistara í Tékklandi í haust og endaði í 8. sæti. Við útgáfu á síðasta meðaltali Keilusambands Íslands kom í ljós að Arnar Davíð er með næst hæsta meðaltal íslenskra karla 215 að meðaltali. Arnar Davið er góð fyrirmynd ungra keilara.

Tekið af kli.is

Skúli Freyr og Dagný Edda Stórmeistarar KFR 2016

Í gærkvöldi fór fram hið árlega meistaramót KFR en í ár tóku 13 konur þátt og 12 karlar.

Til að gera langa sögu stutta þá endaði forgjafarkeppni mótsins svona:

Hjá konunum

  1. Dagný Edda
  2. Málfríður Jóna
  3. Anna Kristín
  4. Theódóra

Hjá körlunum

  1. Freyr
  2. Árni Þór
  3. Skúli Freyr
  4. Baldur

Í úrslitunum um stórmeistaratitilinn mættust svo mæðgurnar Dagný Edda og Theódóra en þar fór Dagný Edda með sigur að hólmi og er því stórmeistari KFR 2016.

Hjá körlunum mættust Lærlingarnir Freyr Braga og Skúli Freyr og þar var það Skúli sem bar sigur úr býtum og er hann því stórmeistari KFR 2016.

Við þökkum öllum fyrir gott mót.

 

kv. Stjórn

jonas

 

Arnar Davíð í 8.sæti í Evrópumóti Landsmeistara

Arnar Davíð Jónsson úr KFR hefur lokið keppni á ECC, Evrópumóti landsmeistara, í Olomouc. Arnar endaði í 8. sæti.

 

Arnar var í 8. sæti áður en keppni hófst í dag og þrátt fyrir góða spilamennsku tókst honum ekki að spila sig upp um sæti. Arnar spilaði 912 í 4 leikjum eða 228 í meðaltal.

Það er ekki hægt að segja annað en að Arnar hafi átt frábært mót. Hann spilaði í heildina á 225.11 í meðaltal og það er klárt að þetta fer í reynslubankann enda Arnar ungur og á mikla framtíð fyrir sér.

“Í heildina er ég sáttur við frammistöðuna. Ég kom inn í 8 manna úrslitin í erfiðri stöðu sem sést best á því að þó ég spili vel í dag hefur það ekkert að segja. Auðvitað er alltaf hægt að finna hluti sem hefðu mátt klára betur en 8. sætið er staðreynd og er ég nokkuð sáttur við það” sagði Arnar eftir að hafa lokið keppni í dag.

 

Hafdís Pála Jónasdóttir úr KFR spilaði einnig í mótinu en henni gekk því miður ekki nógu vel en leifaspilið var að stríða henni mikið í mótinu. Hún endaði í 34. sæti.  Hún spilaði í heildina 2622 sem gerir 163,9 í meðaltal.

Arnar Davíð og Hafdís Pála
Arnar Davíð og Hafdís Pála