Saga keilunar á Íslandi

Keilan barst fyrst til Íslands með bandaríska setuliðinu, sem dvaldi hér á árunum 1941-1946. Í braggahverfi sem nefnt var Camp Knox og var í vesturbænum í Reykjavík var byggður sérstakur braggi fyrir keiluna. En það voru aðeins hermenn sem höfðu aðgang að þessum keilubrautum. Að stríði loknu varð braggahverfið eign Reykjavíkurborgar og þar með bragginn með keilubrautunum. Árið 1953 gerist það svoa ð þrír ungir menn, bræðurnir Ólafur Ágúst og Þorsteinn Ólafssynir og Steinn Kristjánsson tóku braggann á leigu. Þá voru brautirnar í tiltölulega góðu ásigkomulagi og þurfti lítið að dytta að þeim. Aftur á móti þurfti bragginn sjálfur lagfæringar við og kyndinuna þurfti einnig að bæta.

Haustið 1953 var keilusalurinn opnaður og gafst þá Íslendingum í fyrsta skipti færi á að leika keilu hér á landi. Þó að þessar brautir væru í ágætis ásigkomulagi áttu þær það til að vinda sig. Ástæðan var léleg einangrun í bragganum og hin ófullkomna olíukynding, sem varð til þess að hita- og rakastig var mjög sveiflukennt. Einnig kom það oft fyrir í slæmum veðrum að bragginn fylltist af reyk. Brautunum fylgdu kúlur en keilurnar urðu þremenningarnir að láta renna hjá trésmiði. Þessar keilur voru ekki nógu sterkbyggðar og entust þess vegna ekki lengi. Lausn fékkst á þessu máli þegar bandaríska sendiráðið útvegaði keilur frá Bandaríkjunum. Engar vélar voru með þessum brautum. Þess í stað sáu ungir piltar um að stilla upp keilunum og koma kúlunum til baka. Oftast voru það skólapiltar sem unnu við þetta í frístundum sínum. Þessu var þanig háttað að fyrir aftan keilustæðið var stór púði sem tók við höggi kúlunnar, en hún féll síðan ásamt keilunum niður í gryfju. Meðan skotið reið af sátu keilustrákarnir fyrir ofan púðann svo þeir yrðu ekki fyrir kúlunni, en klifruðu síðan ofan í gryfjuna til þess að stilla keilunum upp aftur og rúlla kúlunni eftir rennunni aftur til leikmannsins. Þetta var erfið vinna en gat gefið gott í aðra hönd. Leikurinn kostaði 4 krónur og fékk keilustrákurinn þar af fjórðung eða 1 krónu.

Á þessum árum var nánast ómögulegt fyrir fólk að eignast keiluskó og kúlu, nema einstaka flugmaður sem hafði orðið sér út um slíkt á ferðalögum sínum til Bandaríkjanna. Keilan varð fljótt mjög vinsæl. Salurinn opnaði klukkan 17 virka daga en var opinn allan daginn um helgar. Strax voru fyrirtæki og hópar komnir með fasta tíma. Aðsóknin var feikilega mikil, þrátt fyrir að aðstaðan hafi ekki verið góð, t.d. var engin hreinlætisaðstaða. Þessar erfiðu aðstæður urður til þess að starfsemin lagðist alveg niður í lok árs 1955 og gafst Íslendingum því ekki tækifæri á að leika keilu hér á landi aftur fyrr en Keilusalurinn í öskjuhlíð var opnaður árið 1985.