Nýtt tímabil hinu megin við hornið.

Nú fer að líða að því að nýtt tímabil hefjist í keilunni. Eins og áður hefur komið fram þá var gerð sú breyting á síðasta þingi KLÍ að nú er spilað í þriggja manna liðum í deildinni. Þetta hefur haft í för með sér að liðum í KFR hefur fjölgað úr 10 í 12 sem er ánægjulegt.
Undirbúningur fyrir tímabilið er að fara af stað bæði hjá stjórn og einnig hjá liðunum og einstaklingunum. Eitt stærsta málið í haust verður afmælishátið KFR en félagið er 30 ára á þessu ári. Valinkunnur hópur fólks hefur tekið að sér að skipuleggja afmælishátíðina og verður hún auglýst nánar síðar.
Keiluhöllin hefur auglýst nýtt fyrirkomulag varðandi æfingakortin og lítur það vel út. Eins hefur heyrst að einhverjar nýjungar verði í boði varðandi þau. Stjórn KFR mun á næsta fundi taka ákvörðun um með hvaða hætti félagið mun koma að þessum kortum. Nánar um æfingakortin hér.  http://www.kli.is/frettir/2549
Á vegum KLÍ er í gangi nefnd sem er að skoða reglugerðir sambandsins. Þar er m.a. verið að skoða fyrirkomulag í deildarkeppni kvenna og eins fyrirkomulag bikarkeppninnar. Nefndin á að skila af sér niðurstöðum til stjórnar KLÍ á næstu dögum og mun stjórn KLÍ í framhaldinu leggja þær breytingar sem fyrirhugaðar eru fyrir formannafund.

Það er ljóst að framundan er skemmtilegt tímabil en eins og alltaf er það í höndum okkar keilaranna að tryggja að svo verði. Vonandi leggjumst við öll á eitt með að tryggja það.

kfr_logo

Athugasemdir

athugasemdir