Tvöfalt hjá KFR

Hafdís Pála Jónasdóttir og Arnar Davíð Jónsson urðu Íslandsmeistarar einstaklinga í gærkvöldi.

Hafdís, sem á dögunum varð fyrsta íslenska konan til að spila 300, átti frábært mót og leiddi það nær allan tímann. Hún mætti Lindu Hrönn Magnúsdóttur úr ÍR í úrslitum og sigraði hana í tveimur leikjum. Í þriðja sæti varð svo Dagný Edda Þórisdóttir úr KFR. Alls áttum við KFR-ingar 4 konur í 8 manna úrslitum en auk Hafdísar og Dagnýar voru það Ragnheiður Þorgilsdóttir Íslandsmeistari 2015 sem endaði 4. sæti og Katrín Fjóla Bragadóttir sem endaði í 7. sæti.  Frábær árangur hjá konunum okkar.

Í karlaflokki var sama upp á teningnum og i kvennaflokknum. Arnar Davíð leiddi mótið nær allan tímann og í raun má segja að engin hafi komist með tærnar þar sem hann hafði hælana.  Arnar spilaði frábærlega og sigraði Stefán Claesen ÍR í úrslitum, 2 – 0. Fyrri leikurinn í úrslitunum var æsispennandi, hann enaði 214 – 214 og þurfti því að grípa til bráðabana þar sem Arnar náði fellu en Stefán 9 keilum.  Eins og í kvennaflokki þá átti KFR fjóra af átta sem spiluðu í úrslitum og eins og í kvennaflokki þá enduðu okkar keppendur í sætum 1, 3, 4 og 7. Freyr Bragason endaði í 3. sæti, Steinþór Jóhannsson í 4. sæti og Björn Birgisson í því sjöunda. Glæsilegur árangur.

Eins og áður er sagt þá er þessi árangur frábær og erum við KFR-ingar mikið stollt af okkar fólki. Eitt nafn verður þó aðeins útundan í allri umræðunni og það er nafn Theódóru yfirþjálfara KFR. Hún hefur unnið mikið með bæði Arnar Davíð og Hafdísi,  með Arnari áður en hann flutti til Noregs og eitthvað eftir það og svo með Hafdísi alveg frá því að hún byrjaði í keilu.  Dóra hefur unnið frábært starf og á mikinn þátt í þessum árangri.

Við óskum öllu okkar fólki til hamingju með árangurinn og þá sérstaklega þeim þremur, Hafdísi, Arnari Davíð og Theódóru.

 

Arnar Davíð og Hafdís Pála
Arnar Davíð og Hafdís ásamt Theódóru yfirþjálfara KFR
Dagný Edda, Hafdís Pála og Linda Hrönn
Arnar Davíð Jónsson

Athugasemdir

athugasemdir