Gústaf Smári Björnsson og Magna Ýr Hjálmtýsdóttir bæði úr KFR urðu í gærkvöldi Íslandsmeistarar einstaklinga árið 2017.
Eftir undanúrslitin í kvennaflokki voru þær Magna Ýr, Dagný Edda Þórisdóttir og Ragna Matthíasdóttir allar úr KFR efstu þrjár og léku til úrslita. Eftir fyrsta leikinn féll Dagný úr leik með lægstan leikinn og eftir stóðu Magna og Ragna. Þar gerði Magna engin mistök en hún spilaði 226 á móti 151. Svo sannarlega sanngjarnt enda Magna verið efst í mótinu frá leik 2 í mótinu. Innilega til hamingju Magna Ýr en þetta var í fyrsta sinn sem hún verður Íslandsmeistari einstaklinga.
Eftir undanúrslitin karlamegin var Arnar Davíð Jónsson íslandsmeistarinn 2016 úr KFR efstur en á eftir honum voru þeir Andrés Páll Júlíusson úr ÍR og Gústaf Smári Björnsson úr KFR. Eftir fyrsta leikinn féll Arnar Davíð óvænt úr leik en margir bjuggust við að hann myndi verja titilinn sinn en hann hafði leitt mótið mestan partinn. Leikur 2 var æsispennandi frá upphafi til enda en þeir skiptust þónokkuð á því að hafa forystu í leiknum. Fór svo að lokum að Gústaf dugði 9 í 10unda ramma og fékk hann 9 og varð hann því Íslandsmeistari einstaklinga í fyrsta skipti. Innilega til hamingju Gústaf með frábæra frammistöðu.
Að lokum viljum við þakka öllum styrktaraðilum KFR fyrir þeirra hjálp og svo viljum við líka segja takk stjórn KLÍ fyrir frábært mót, skemmtilegt og spennandi og fyrir frábæra umgjörð og flott úrslit sem fóru fram í beinni útsendingu á Rúv2 í gærkvöldi.
Að neðan má sjá efstu 3 í bæði karla- og kvennaflokki.